Það má syrgja í kjölfar ofbeldis

Svava

Höfundur

Svava Guðrún Helgadóttir, ráðgjafi í Bjarkarhlíð

Flest förum við inn í sam­bönd með það fyrir augum að eiga í heil­brigðum og ást­ríkum sam­böndum byggðum á jafn­réttis­grund­velli. Við höfum á­kveðna fram­tíðar­sýn með til­liti til sam­bandsins og þess sem það kemur til með að færa okkur. Þegar við gerum okkur grein fyrir því að þessi sýn verður ekki að veru­leika er eðli­legt að til­finningar sorgar og hryggðar banki upp á.

Að búa við of­beldi hefur á­hrif á alla þætti lífs þeirra sem fyrir því verða. Þegar í­trekað and­legt niður­brot hefur átt sér stað verður sjálfs­myndin bjöguð og lituð af niður­rifi gerandans. Fé­lags­leg ein­angrun er al­geng og þarf sá sem fyrir of­beldinu verður oft að horfa á eftir inni­legum tengslum við vini og fjöl­skyldu vegna pressu frá þeim sem of­beldinu beitir. Al­gengt er að þol­endur upp­lifi skerta trú á eigin getu, missi tengsl við inn­sæi sitt, til­finningar og gildi. Þá er al­gengt að gerandi beiti gas­lýsingu, al­var­legri birtingar­mynd and­legs of­beldis, til þess að af­vega­leiða ein­stak­ling og búa til at­burða­rás sem hentar að­eins mál­stað þess sem of­beldinu beitir. Ef ó­sannindi eru mat­reidd ofan í ein­stak­ling í­trekað er ekki ó­eðli­legt að hann fari að efast um eigin sann­færingu, upp­lifanir og minningar og ein­mitt þess vegna er gas­lýsing jafn al­var­leg og raun ber vitni.

Sorg er sam­mann­leg til­finning sem tekur á sig fjöl­margar myndir. Hún er eðli­legt við­bragð við missi sem þegar hefur orðið eða missi sem vofir yfir. Í raun er sorg hlykkj­óttur vegur sem felur í sér fjölda til­finninga. Þol­endur of­beldis fara ekki var­hluta af því að upp­lifa missi af ýmsum toga. Ekki að­eins er þolandi að horfa á eftir maka sínum og þeirri fjöl­skyldu­í­mynd sem hann gerði sér í hugar­lund heldur ekki síður horfir hann á eftir hluta að sjálfum sér sem hann óttast að ná ekki að endur­heimta. And­leg og líkam­leg heilsa hefur orðið of­beldinu að bráð. Friðurinn innra með ein­stak­lingnum hefur fjarað út og með honum fór sjálfs­myndin. Þol­endur fara í gegnum per­sónu­bundið sorgar­ferli og sveiflast á milli ó­líkra til­finninga sem koma og fara. Al­gengt er að ein­staklingar sveiflist á milli skilnings og van­trúar, af­neitunar og sam­þykkis. Til­finningar á borð við ótta, höfnun, hjálpar­leysi og reiði eru al­gengar til­finningar en sömu­leiðis mikil­vægur partur af ferlinu.

Ein­stak­lingur sem missir ást­vin af völdum sjúk­dóma eða slys­fara er gefið rými til þess að syrgja. Um­hverfið stendur með við­komandi og honum er sýndur verð­skuldaður stuðningur. Því miður er það ekki alltaf upp­lifun ein­stak­lings sem yfir­gefur of­beldis­sam­band. Al­gengt er að hann fái skila­boð þess efnis að nú eigi hann að gleðjast yfir því að hafa komið sér úr sam­bandinu og ekki sé þörf fyrir að syrgja heldur halda ó­trauður á­fram. Þá er ekki síður al­gengt að þolandi sjálfur upp­lifi að hann eigi ekki rétt á sinni sorg. Til­finningar hans hafa al­mennt ekki verið viður­kenndar fram til þessa og hví ætti þolandi nú að fara að gefa til­finningum sínum vægi? Við þessar að­stæður fer hann á mis við nauð­syn­legan stuðning og sam­kennd frá sjálfum sér og öðrum. Það sem flækir málin síðan veru­lega er sú stað­reynd að sá sem veldur þjáningunni og lit­rófi erfiðra til­finninga er sá hinn sami og hefur staðið þolandanum næstur.

Nú þegar há­tíð gengur í garð er eðli­legt að upp­lifa sorg og hryggð. Syrgja há­tíðis­daga sem litast hafa af gjörðum gerandans. Rifja upp gleði­stundir sem ekki urðu og jól þar sem erfitt var að mæta vonum og væntingum barnanna sökum of­beldis og ó­mann­legs á­lags. Þá er ekki síður mikil­vægt að sýna sjálfum sér sam­kennd, mæta sér af ein­lægni og af­neita ekki þeim til­finningum sem upp koma og þeirri þýðingu sem þær hafa. Of­beldi er sam­fé­lags­mein sem hvergi á að þrífast og til þess að stemma stigu við því verðum við að taka höndum saman og berjast gegn því. Við verðum að berjast gegn þöggununni og viður­kenna reynslu og til­finningar þol­enda, þar er sorgin stór og viða­mikill þáttur. Ferli sem tekur tíma en leiðir vonandi af sér sátt.

Allir hafa rétt á sinni sorg. Hún er mikil­vægur partur af bata hvers manns og að­lögun að nýju lífi. Engin leið er úr sorginni nema í gegnum hana.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu í til­efni 16 daga á­taks gegn kyn­bundnu of­beldi.