Hollustureglur og aðrar furðulegar reglur í ofbeldissamböndum

Jenny

Höfundur

Jenný Kristín Valberg, ráðgjafi í Bjarkarhlíð

Ein af hverjum þremur konum mun upplifa ofbeldi í nánu sambandi einhverntímann á lífsleiðinni, það er óháð trúarskoðunum, stétt, aldri, kynhneigð, fötlun eða lífskoðunum. Ofbeldi í nánum samböndum er alvarlegur félagslegur vandi sem þarf að taka á. Því ofbeldi í nánum samböndum brýtur niður sjálfstraust og félagsfærni einstaklinga, eyðileggur samskipti innan fjölskyldna, skaðar börn í uppvexti, eyðileggur foreldrahæfni foreldra, einangrar fólk ásamt því að skapa neikvæðar tilfinningar eins og skömm, sektarkennd og einmanaleika.

Ofbeldi í nánum samböndum á rætur í tengsl valda og stjórnunar innan fjölskyldna þar sem ákveðin lögmál ríkja og þar má fyrst nefna „hollustu reglur“. Með þeirri aðferð fær gerandi þolanda sinn til að „velja“ á milli hans og annarra. Gerandi fær þolanda til að „sjá“ að vinir hafi slæm áhrif á samband þeirra og að fjölskyldumeðlimir þolanda séu jafnvel að reyna að stígja þeim í sundur. Þolandi fær það hlutverk að fá aðra til að líka vel við geranda sinn og láta hann líta vel út og einnig að láta eins og þau séu hamingjusöm saman. Að öðrum kosti er hætta á að þolandi þurfi að „velja“ á milli þess að rækta ástarsambandið eða vera í samskiptum við fjölskyldu og vini. Ef þolanda mistekst að láta allt líta vel út verða afleiðingar og þolanda er refsað. Á sama tíma og þetta einangrar þolanda þá færir þessi aðferð geranda meiri stjórn. Allar sjálfstæðar ákvarðanir verða hér eftir álitnar óhlýðni.

Önnur skilyrðing fer oft einnig af stað í ofbeldissamböndum en hún er tengd afbrýðissemi og er einnig mjög alvarleg þar sem afbrýðissemi er ein helsta afsökun fyrir morðum í ofbeldissamböndum. Afbrýðisemi er afsökuð af geranda sem eðlilegt viðbragð í rómantískum ástarsamböndum sem getur auðvitað komið upp í einstökum tilvikum. En mynstur þar sem afbrýðissemi er notuð til að breyta eða móta hegðun eða vali einstaklings er ekki eðlileg.

Fólk með ofbeldishegðun leyfir sér því að þvinga maka til að forðast að gera hluti sem geta vakið upp „afbrýðissemi“ þeirra. Þau réttlæta hegðun sína á ýmsan hátt eins og „ég ræð bara ekki við mig þegar ég sé þig tala við aðra“ eða „mér finnst ekki í lagi að þú farir út í þessum fötum því allir munu horfa á þig“. Hvernig í veröldinni eigum við að geta komið í veg fyrir að gera manneskju afbrýðissama ef það er í raun hver hún er. Þá mun allt sem við gerum og/eða segjum vekja afbrýðisemi hjá henni. Getum við alltaf forðast að tala við aðra, fólkið í búðinni, lækninn, kennarann, samstarfsfólk, nágranna, fjölskyldu og vini? Kannski ættum við einnig að hætta að klæða okkur í föt sem fara okkur vel og mögulega ættum við aldrei að fara neitt án maka okkar né eiga vini eða tala við fólk á samfélagsmiðlum. Og líklega ættum við bara að láta maka okkar fá símann okkar og aðgangsorðin inn á öll öppinn svo hann geti lesið og vitað allt um okkur.

Listinn yfir það sem við gætum gert til að koma í veg fyrir að okkur verði refsað er endalaus og vonlaust að reyna að átta okkur á hvað gæti komið næst. Þolandi endar því á að lifa lífi í krónískum ótta þar sem frelsi hans er verulega takmarkað og oft í mikilli einangrun frá öðru fólki.

Afbrýðissemi og eigingirni eru mjög sjálfelskar hugsanir og ekki eðlilegur samskiptamáti og eiga aldrei að verða að vana í nánum samböndum. Þær eru ekki birtingarmyndir elskandi og umhyggjusamrar manneskju því engin á maka sinn, við fáum leyfi til að vera með mökum okkar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu í tilefni 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi.