Höfundur
Karen Birna V. Ómarsdóttir, ráðgjafi í Bjarkarhlíð
Það er eðlilegt að vera á varðbergi gagnvart fólki eftir að hafa þurft að þola ofbeldi í nánu sambandi. Í slíku sambandi getur einstaklingur verið orðinn vanur hegðun sem var beitt til þess að brjóta niður sjálfstraustið, skerða mörk og getu til þess að standa með sjálfum sér. Eftir slík sambönd tekur við ákveðið bataferli og einn hluti af því er að læra að tengjast aftur innsæi sínu og getu til að treysta aftur.
Það er mikilvægt að hafa nokkra þætti í huga þegar tekið er skref í átt að nýju sambandi eftir óheilbrigt samband. Góð samskipti eru lykill að því að eiga í heilbrigðu sambandi við aðra manneskju hvort sem um parasamband eða samband við fjölskyldu og vini er að ræða. Gagnkvæm virðing er sýnd gagnvart tilfinningum, mörkum, skoðunum og rétti til einkalífs. Einnig er mikilvægt að styðja við maka sinn og fá gagnkvæman stuðning. Manneskja á ekki að týna sjálfri sér í annarri manneskju heldur hafa rými til að vaxa, rækta áhugamál og verja tíma með fjölskyldu og vinum.
Í ofbeldissambandi hefur manneskja vanist því að tipla á tánum og vera tilbúin til þess að breyta öllu í eigin fari til þess að forðast árásir frá maka sínum. Hlusta á ljót orð í eigin garð sem reynt er að horfa fram hjá en gleymast í raun ekki og skilja eftir sig sár. Eftir að hafa verið í slíkum aðstæðum getur reynst erfitt að lesa ekki í hvert orð, hreyfingu og jafnvel andardrátt hjá nýjum maka. En tíminn leiðir í ljós að ekki er þörf að huga að þessum hlutum. Sem dæmi má taka getur ósætti í nýju sambandi vakið upp erfiðar tilfinningar og algengt er að einstaklingur leiti í sömu viðbrögð og hann hefði gripið í of beldissambandi. Mikilvægt er að vita að það er eðlilegt að taka sér pásu og fá rými til að ná andanum og hugsa hvernig sé best að takast á við aðstæður. Einnig er mikilvægt fyrir nýja makann að vita af þessum kveikjum svo að mögulegt sé að mæta hinum aðilanum á þeim stað sem hann er og sýna honum virðingu og skilning. Í öllum samböndum kemur upp ósætti og fólk getur rifist. En munurinn er sá að tekist er á við ósætti eða rifrildi með yfirvegun og virðingu. Í heilbrigðu sambandi mætast báðir aðilar á jöfnum grundvelli og reyna að finna lausn á vandanum sem í sumum tilfellum getur verið að vera sammála um að vera ósammála.
Ferlið verður að byrja innra með okkur. Gott er að vita gildin sín og hvar mörkin okkar liggja ásamt því að vita hvaða væntingar við gerum til sambanda. Einstaklingur á aldrei að þurfa að breyta sjálfum sér eða maka sínum til þess að sambandið gangi. Mundu að þú átt rétt á því að þér sé mætt sem jafningja og af virðingu. Heilbrigð samskipti er eitthvað sem mörgum kann að finnast flókin og það er í lagi. Að breyta samskiptamynstri sem einhver hefur vanist jafnvel frá því í barnæsku er mikil æfing. Því er gott að hafa augun opin fyrir því hvort að nýja manneskjan sem komið hefur inn í líf þitt er tilbúin að mæta þér.
Mikilvægt er að taka fram að sárin sem ofbeldissambönd skilja eftir sig eru flókin. Gott getur verið að fara í gegnum þau sár með fagaðila sem þekkir inn á eðli ofbeldis. Ég vil því benda á að hægt er að bóka tíma hjá ráðgjöfum Bjarkarhlíðar fyrir 18 ára og eldri. Einnig er hægt að lesa nánar um heilbrigð og óheilbrigð sambönd á sjukast.is.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu í tilefni 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi.